.png)

Velkomin/n á nýju síðuna okkar!
Þessi síða er ætluð til þess að kynna nýja höfn á Íslandi sem að er að koma í landi Galtarlækjar í Hvalfjarðarsveit. Einnig verður gert ráð fyrir hafnar og atvinnulóðum á svæðinu.
Hér er hægt að nálgast Skipulagslýsingu.


Uppbygging í landi Galtarlækjar í Hvalfjarðarsveit
Vegna breyttra aðstæðna, m.a. þéttingar byggðar í Reykjavík, er mikil eftirspurn eftir rúmum
athafnasvæðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Farið að þrengja að ýmsum fyrirtækjum á iðnaðar-
og athafnasvæðum borgarinnar og síðastliðin ár hafa fyrirtæki verið að færa starfsemi sína í auknum
mæli út fyrir borgina. Útlit er fyrir að þörf sé fyrir uppbyggingu svæða með aðgengi að góðri
uppskipunarhöfn og stórum geymslu- og lagersvæðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins muni aukast.
Með tilkomu Sundabrautar og annarra skipulagsáforma á höfuðborgarsvæðinu má leiða líkur að
starfsemi í Sundahöfn fari minnkandi og þá vanti góða uppskipunarhöfn sem komi í hennar stað. Ný
uppskipunarhöfn og viðlegukantur að Galtarlæk með rúmu athafnasvæði er því ákjósanlegur kostur og
með breikkun Hvalfjarðarganga og tilkomu Sundabrautar munu ferðir og flutningar til og inn á
höfuðborgarsvæðið styttast og batna til muna.
​
​Gert er ráð fyrir rúmgóðum lóðum með góðu athafnarsvæði en áhersla verður lögð á hreinlega
starfsemi þar sem m.a. verði vel hugað að umhverfisvænum lausnum á fráveitu, neysluvatni,
raftengingum o.fl. Lóðastærðir eru á bilinu 0,8 til 4 ha lóðir.
Stefnt er að því að svæðið verði byggt upp samkvæmt hugmyndafræði grænna iðngarða þar sem
áhersla er lögð á starfsemi sem fellur undir hringrásarhagerfið þar sem leitast er eftir að hámarka
verðmætasköpun úr nýtingu auðlinda og koma í veg fyrir úrgang úr framleiðslukeðjum. Gert er ráð fyrir
að uppbygging og starfsemi sé til hagsbóta fyrir efnahag, umhverfi og samfélag.
Aðstæður á svæðinu eru að mörgu leyti heppilegar fyrir til uppbyggingar, melar og jarðvegur oft ekki
mikill en lífrænn jarðvegur verður nýttur í manir og grassvæði innan svæðis. Melar, gróft efni verður
eftir atvikum nýtt í grunna og fyllingar. Hægt er að sækja drjúgan hluta efnis finna innan svæðisins
vegna landmótunar til lóðagerðar, en miklar efnisnámur eru beggja vegna Akrafjalls s.s. í landi
Kúludalsár og Kirkjubóls og einnig í landi Fellsenda.
​
Athafnasvæði og hafnarsvæði verða samliggjandi núverandi atvinnusvæði á Grundartangasvæðinu og
höfn og viðlegukantur verður í framhaldi hafnarmannvirkja á Grundartanga. Áætlað er að höfn muni
þjónusta bæði flutningaskip og hluti hafnar mun einnig sinna stórum skemmtiferðaskipum.
Gert er ráð fyrir hreinlegri athafnastarfsemi innan skipulagssvæðis en er á iðnaðarsvæðinu á
Grundartanga og umhverfisvænum lausnum verður beittvarðandi neysluvatn, fráveitu og raftengingar
skipa og bifreiða. Fyrirhugað er að á svæðinu verði starfsemi sem hýsi vörugeymslur, geymslusvæði og
ýmiss konar þjónustusvæði, t.d. vegna hafnsækinnar starfsemi.
Aðstæður á svæðinu eru heppilegar fyrir hafnargerð, þarna er aðdjúpt en stutt í efnisnámur í fyllingar og hafnargarða. Að bryggjunni gætu því lagst stór skip með mikilli djúpristu, t.d. stór skemmtiferðaskip og flutningaskip. Gert er ráð fyrir að öll skip hafi möguleika á landtengingu við rafmagn,
sem dregur verulega úr útblæstri og mengun frá þeim.
Áhersla verður lögð á góða umgengni og frágang lóða. Jarðvegsmanir verða gerðar bæði við þjóðveg
og landamerki, til að minnka áhrif frá lýsingu og hávaða frá svæðinu ásamt því að jafna og fegra
landslag. Stefnt er að því að svæðið verði byggt upp samkvæmt hugmyndafræði grænna iðngarða.

